Tælenskt nautasalat

Hér spilar sósan risastórt hlutverk. Hún er svo góð að ég gæti drukkið hana með röri. Ætla samt ekki að gera það heldur bara setja helling af henni á nautasalatið. Ég geri hana í morteli því ég fýla áferðina þegar hún er gerð þannig. Svo stjórnið þið alveg hvaða chili þið notið og hversu mikið því við þolum öll misjafnlega mikið af því 😀


Dressing:

  • 3 hvítlauksrif
  • Chili eftir smekk 
  • Smá salt 
  • ¼ búnt kóríender
  • 2 msk sykur
  • 2 msk fiskisósa
  • Safi úr ½ lime
  • 2 msk ólífuolía

Byrjaðu á því að setja chili og hvítlauk saman í mortel og merja saman. Svo næst setur þú saltið og kóríanderlaufin og mauka vel saman. Svo eru það sykurinn, fiskisósan og safinn út lime-inu sem fara út í ásamt ólífuolíunni. 


Ég hef notað marga skurði af kjöti í salatið. Uppáhaldið mitt er fille en þið getið alveg notað það sem þið kjósið. 

  • 600 g nautafille
  • Olía 
  • Salt og pipar

Kryddaðu kjötið með salti og pipar. Hitaðu pönnu með smá olíu á. Steiktu kjötið í 4 mínútur á annarri hliðinn, snúðu því svo við og steiktu það áfram í 4 mínútur. Slökktu undir pönnunni, snúðu kjötinu við og leyfðu því að hvíla vel á pönnunni. Skerið svo kjötið í þunnar sneiðar. 


Fyrir salatið sjálft þá nota ég:

  • Salat / það flottasta í búðinn hverju sinni
  • Agúrku
  • Tómata
  • Gulrætur í þunnum sneiðum
  • Fullt af kóríander
  • Fullt af myntu 

Svo blandið þið þessu öllu saman á disk og njótið með bestu lyst.

Til baka