Massaman karrý frá grunni

Sunnudagar hjá okkur fara oft í að elda eitthvað alveg frá grunni. Það þýðir samt ekki að það sé eitthvað flóknara. Maður hefur bara meiri tíma og getur dúllað sér í einhverju svona matarnördadæmi. Lyktin liggur í loftinu og maður verður svo spenntur að smakka og borða. Svona eins og 100 bita púsl vs 1000 bita púsl. Þá er tilvalið að gera Massaman karrý. Ég mæli með því að fara líka í matvörubúð sem selur vörur frá Asíu til að fá alveg réttu hráefnin í uppskriftina til að ná fram rétta bragðinu en ef þið hafið ekki tök á því þá er alltaf mjög auðvelt að finna staðgengil fyrir eitthvað með því að Googla 😀

Tælenskur matur er einn sá besti að mínu mati og er mjög trending í heiminum í dag svo þið getið verið spennt að bjóða fólki heim í sunnudags karrý 😀ps krakkarnir ELSKUÐU þetta! 


Þetta eru nokkur skref sem þarf að fylgja. 

Skref 1. 

Kjúklingurinn 

700 g úrbeinuð kjúklingalæri

500 ml kjúklingasoð

2 lárviðarlauf


Settu kjúklinginn í pott ásamt soðinu og lárviðarlaufunum. Fáðu upp suðu og lækkað svo alveg undir þannig að það bara rétt sjóði í svona klukkutíma. Taktu svo kjúklinginn upp úr og leyfðu soðinu að sjóða áfram niður þar til það er svona 250 ml af vökva. 


Skref 2.

Kryddmaukið 

4 skarlottulaukar

5 hvítlauksgeirar

3 cm engifer

1 stk lemmongrass

6 stk þurrkaðir litlir chili

4-6 msk vatn 


Hitaðu pönnu þar til hún er rjúkandi heit. Skrældu og skerðu laukana gróft niður, hvítlaukinn og engiferrótina, steiktu það á þurri pönnu í smá stund og taktu svo allt af pönnunni. Skerðu svo lemmongrassið fínt niður og taktu fræin úr chili-inu. Setttu svo allt saman í matvinnsluvél eða blandara og maukaðu vel saman. 


Skref 3.

Þurrkryddblandan

½ tsk negull

1 tsk cumin

1 tsk kóríander

½ tsk kardimomma

½ tsk kanill


Blandaðu öllum þurrkryddunum saman. Hitaðu pönnuna aftur steiktu kryddin í smá stund. Það að steikja saman krydd opnar þau og gerir bragðið meira og betra. Passiði bara mjög vel að brenna þau alls ekki. Þetta eru svona 30 sekúndur. Bætið svo kryddunum út í kryddmaukið (skref 2) í blandarann og maukið vel saman. 


Skref 4.

Karrýsósan

65 ml olía

400 ml kókosmjólk

1 msk tamarind mauk 

1 kanilstöng

1 stjörnuanis

1 msk fiskisósa

1 msk sykur

2 stk kartöflur


Taktu stóran pott, kveiktu undir honum á miðlungs hita og settu smá olíu í til að steikja. Bættu karrýmaukinu út í og eldaðu það í 3 mínútur þar til það þykknar aðeins. Bættu svo kókosmjólkinni út í og hrærðu vel saman. Bættu kanilstönginni, stjörnuanisinum og kjúklingasoðinu út í, lækkaðu undir og leyfðu þessu að sjóða eins saman. Hrærðu fiskisósunni, tamarind sósunni og sykrinum saman við. Skerðu kartöflurnar í bita og bættu þeim loks út í. Leyfðu þessu að sjóða í 10-12 mínútur. Settu þá kjúklinginn út í og leyfðu þessu að sjóða áfram aðeins saman. Ef þetta er of þykkt þá getið þið alltaf bætt smá vatni út í. Berið fram með soðnum hrísgrjónum, söltuðum hnetum og steiktum shallottulauk. 
Til baka