Skilgreiningin á Cobb salati samkvæmt Google er salat oftast með kjúklingi eða kalkún, tómötum, beikoni, harðsoðnu eggi, gráðosti og káli, dressað með vínagrettu. Ég legg ekki í að bjóða allri fjölskyldunni upp á gráðost eins og staðan er í dag. Kannski þegar krakkarnir verða eldri þá hafa þau smekk fyrir því. Ég elska að nota feta kubb í staðin sem ég sker niður í litla bita. Svo finnst mér algjör lykill að hafa allt aðskilið. Þá geta allir fengið sér nákvæmlega það sem þeir vilja og meira af því sem þeim finnst gott. Ég nota stundum líka tækifærið, bæti einhverju “nýju” grænmeti / ávexti við og læt krakkana smakka eitthvað nýtt þegar ég ber salatið svona fram því það þarf auðvitað ekkert að vera nákvæmlega svona eins og uppskriftin er 😀
Fyrir 4
Kjúklingurinn:
- 1 bakki úrbeinuð kjúklingalæri
- 1 msk olífuolía
- 1 tsk cumin
- 1 tsk oregano
- 1 tsk svartur pipar
- 2 hvítlauksrif
- 8 sneiðar af beikoni
Blandaðu öllum kryddunum og olíunni saman í skál og marineraðu í 30 mínútur. Steiktu svo kjúklinginn á heitri pönnu í 2 mínútur á hvorri hlið. Settu kjúklinginn í eldfast mót og settu grind sem passar á mótið ofan á (getur líka verið ofngrind). Raðaðu beikonsneiðunum á grindina og bakaðu kjúklinginn og beikonið saman á 180°c í 15 mínútur. Það er sniðugt að elda þetta saman til að spara tíma og uppvask.
Annað sem fer í salatið
- 1 dós af maískorni
- 4 stk harðsoðin egg
- 1 pakki kirsuberjatómatar
- 2 stk avókadó
- 100 g saltaðar kasjúhnetur
- 1 bakki bláber
Salat að eigin vali
Vínagretta
- 1 msk hunang
- 1 msk sinnep
- 1 msk edik
- 200-300 ml góð ólífuolía
Þessi dressing er svo góð. Þú getur notað mismunandi sinnep og mismunandi edik til að gjörbreyta henni. Ég er alltaf að setja allskonar í hana og hún er alltaf góð 😛
Settu hungang, sinnep og edik í skál og hrærðu vel saman. Helltu svo olíunni saman við í mjórri bunu og pískaðu allan tímann. Eins og þú sért að búa til mæjónes. Kryddaðu svo með salti og pipar.