Grilluð stórlúða með greipaldin chimichurri

Það getur verið smá kúnst að grilla fisk en með þessari aðferð getið þið verið alveg örugg um að ekkert klikki. Hér er hægt að nota hvaða fisk sem er og ef þið nennið ekki að grilla hann þá er líka hægt að baka hann í ofni. Með þessu grillaði ég svo sætar kartöflur og gulrætur sem ég penslaði með olíu og kryddaði með salti og pipar. 

Fyrir 4 

  • 800 g stórlúða (eða einhver annar fiskur sem þú vilt grilla)
  • 2 stk rautt grape
  • Salt og pipar

Aðferð: Kveiktu upp í grillinu. Skerðu greipið í þykkar sneiðar. Skerðu svo fiskinn í steikur. Þerraðu hann vel og kryddaðu með salti og pipar. Þegar grillið er orðið blússandi heitt, leggðu þá greip sneiðarnar á grillið og settu bita af fisk ofan á. Lokaðu grillinu og grillaðu í svona 6-12 mínútur (fer eftir hversu þykkur fiskurinn er). Til að sjá hvort að fiskurinn sé tilbúinn þá er hægt að þrýsta létt á hann og ef hann brotnar í flögur þá er hann fullkominn. 

 

  • Greipaldin chimichurri
  • ½ búnt kóríander
  • ½ búnt steinselja 
  • 3 hvítlauksrif
  • ½ stk rauðlaukur
  • ½ bolli olía
  • ¼ bolli greipaldinsafi
  • 1 tsk rauðar chili flögur
  • Salt og pipar

Aðferð: Settu kryddjurtirnar og laukana í blandara og maukaðu vel saman. Bættu olíunni og greipsafanaum út í og maukar vel áfram (notar endana sem þú skarst af til að gera sneiðar og kreystir safann úr þeim). Kryddar svo með chiliflögum, salti og pipar. 

Til baka