Bæði maís salsa og tómat salsa er hægt að eiga inní ísskáp í góðan tíma svo ég mæli með að gera nóg af þessu og njóta svo út vikunna. Þetta er hægt að borða með grilluðu kjöti og fisk, burrito eða bara með salati. Svo ferskt og gott. Ég kaupi aldrei salsasósu eftir að ég byrjaði að gera mína eigin. Jalapenó eða chili þið ráðið hvað og hvort þið notið. Líka hversu mikið þið setjið í uppskriftina. Svo mikið smekksatriði og hvað hver og einn þolir.
Fyrir 4
- 600 g lax úr landeldi
- Salt + pipar + olía
- Salatostur / fetaostur
- 8 stk tortillur að eigin vali (ég notaði corn tortillur)
Aðferð: Skerið laxinn í bita og þerrið hann vel með pappír. Það er það mikilvægasta þegar maður grillar fisk og allt annað bara að hafa hráefnið ekki blautt þegar það fer á grillið. Það soðnar bara og festist ef það er þannig. Penslið svo laxinn með olíu og kryddið með salti og pipar. Grillið hann á rjúkandi heitu grilli í 2-3 mínútur á annarri hliðinni og setjið hann svo í eldfast mót með grilluðu hliðina upp, skellið eldfasta mótinu á grillið og eldið fiskinn áfram í 3-4 mínútur. Grillið svo tortillurnar létt á meðan og setjið svo á disk. Smellið svo bita af laxinum á tortilluna, maís salsa, tómatsalsa og loks mulinn salatost yfir. Njótið vel :D
Maís salsa
- 2 ferskir maískófar
- 1 stk rauðlaukur
- Safi úr einu lime
- 2 msk olífuolía
- ½ búnt kóríander
- ½ stk grænt chili
- ½ tsk cumin
- Salt og pipar
Aðferð: Grillaðu maisinn á heitu grilli þar til hann er tilbúinn. Skerðu svo kornið af kófnum og settu í skál. Skerðu laukinnsmátt ásamt chilipiparnum og bættu út. Bættu svo restinni af hráefninu út í og blandaðu vel saman.
Tómat salsa
- 4 stk tómatar
- 2 stk laukur
- 1 stk jalapenó
- 3 stk hvítlauksrif
- Safi úr 2 stk lime
- ½ búnt kóríander
Aðferð: Grillaðu tómatana, laukana og jalapenóið heilt á grilli þar til það er orðið vel grillað. Skerðu það svo gróft niður og settu í blandara ásamt hinu hráefninu og maukaðu saman. Ef þú vilt gróft salsa þá maukaru minna og ef þú vilt fínt salsa þá maukaru meira.